top of page

Viðbrögð við kórónuveirunni sýna að fólk getur breytt hegðun sinni á stuttum tíma

Viðbrögð við kórónuveirunni sýna fram á að fólk getur fjarfundað, dregið úr ferðalögum og breytt hegðun sinni á stuttum tíma að mati ungra umhverfissinna sem komu fram í fréttatíma stöðvar tvö í byrjun kórónuveirufaraldursins í kjölfar eftirfarandi fréttayfirlýsingar. Umfjöllunina má finna hér.


Viðbrögð við neyðarástandi

Við erum unga fólkið og okkur er annt um framtíðina. Við erum af upplýstri kynslóð sem vill hlusta á sérfræðinga og horfa á gögn. Við höfum verið að mæta á loftslagsverkfall hvern einasta föstudag í meira en ár til að berjast fyrir betri framtíð.

Neyðarástand er eitthvað sem hefur mikil neikvæð áhrif á alla og við þurfum að bregðast við því. Við þurfum að hlusta á vísindin til að draga úr neikvæðum afleiðingum. Bæði afleiðingar vegna loftslagsbreytinga og COVID-veirunnar eru neikvæð áhrif á heimsvísu. Við verðum að standa saman sem samfélag og taka ábyrgð.

COVID-veiran er að fá miklu meiri athygli, en loftslagsváin er líka lífshættuleg fyrir viðkæma hópa í heiminum. Það er búið að bregðast töluvert við COVID-veirunni en ekki loftslagsvánni. Loftslagsbreytingar hafa miklu meiri langvarandi áhrif á heiminn. Veiran er óhjákvæmileg og gengur yfir en loftslagsbreytingar eru yfirvofandi og við þurfum að reyna að halda okkur undir 1,5 gráðu hækkun.

Hvatinn okkar virðist helst vera ótti um okkur sjálf. Þess vegna eru ríku löndin ekki að gera neitt í loftslagsvánni af því hún bitnar ekki jafnmikið á okkur strax en COVID-veiran gerir það.

Það sem þetta ástand hefur sýnt okkur er að við getum unnið meira heima og við þurfum ekki að fara á bílnum okkar á hverjum degi í vinnuna. Það er búið að loka löndum sem minnkar flugsamgöngur. Fólk er tilbúið að fresta plönum og hætta við ferðalög svo eitthvað sé nefnt. Við erum tilbúin sem samfélag að breyta til í okkar daglega lífi ef við áttum okkur á ógninni.

En hver er raunverulega ógnin af loftslagsbreytingum? Ef ekkert lát verður á losun gróðurhúsalofttegunda á jörðinni horfum við fram á uppskerubresti víða um heim og mörg svæði verða óbyggileg. Sjávarborð hækkar, sjórinn súrnar og fjöldi dýrategunda eru í útrýmingarhættu. Við megum ekki gleyma því að við stólum algjörlega á náttúruna til að veita okkur allt það sem við neytum. Áhrifin sem við sjáum fyrst eru flóttafólk frá óbyggilegum svæðum og aukinn ójöfnuð í heiminum. Seinna meir má búast við stórvægilegum breytingum á náttúrukerfunum og óvíst verður hvort við getum haldið áfram að stóla á fiskinn í sjónum og ferðamannastrauminn sem hingað kemur til að njóta náttúrunnar.

“Viljum við vera eina dýrategundin á jörðinni?” Sturla Óskarsson, 14 ára

“Við viljum ekki senda börnin okkar í hættulega framtíð.” Emilía Þorgils, 15 ára

“Við viljum lifa í framtíð þar sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga.” Brynjar Bragi Einarsson, 13 ára

“Við eigum ekki að þurfa að kljást við þann vanda sem eldri kynslóðir hafa skapað.” Jökull Jónsson, 13 ára

“Framtíðin okkar skiptir líka máli.” Anna Lára Fossdal, 15 ára

“Fleiri koma til með að deyja út af loftslagsbreytingum en COVID-veirunni samt eru allir að fríka út.” Ida Karolina Harris, 14 ára

“Við ættum að hafa jafn miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum og af COVID-veirunni.” Árelía Mist Sveinsdóttir, 13 ára

“Ef allir væru eins og Íslendingar þyrfti 27 jarðir.” Andri Rafn Ævarsson, 14 ára

Við minnum fólk á að hlusta á vísindin um loftslagsmál eins og með veiruna. Við mælum eindregið gegn því að fólk hópi sig saman og munum því hætta að efla til fjölmennis á föstudögum. Við höldum áfram að mótmæla með öðrum aðferðum eins og á netinu. Hægt er að birta mynd af sér með millumerkinu #climatestrikeonline eða #loftslagsverkfallánetinu. Ef þið viljið leggja okkur enn meira lið þá tökum við á móti vinnuframlagi og hugmyndum inni á facebook hópnum Fridays for Future Ísland - Skipulagshópur og netfangi loftslagsverkfallsins loftslagsverkfall@gmail.com.

English: We should treat the COVID-virus as a crisis and listen to the science like we should also do in the matter of climate-crisis. Therefore we will not be joining in large groups on Austurvöllur any more untill this is over. Instead you can post a picture of yourself with a message and the hashtag #climatestrikeonline or #loftslagsverkfallánetinu. We also have a planning group Fridays for Future Ísland - Skipulagshópur and email loftslagsverkfall@gmail.com where we are open for ideas on how we can keep protesting without putting ourselves and others at risk.

Aðalbjörg Egilsdóttir 24 ára Andri Rafn Ævarsson 14 ára Anna Lára Fossdal 15 ára Anna Valgerður Káradóttir 15 ára Árelía Mist Sveinsdóttir 13 ára Brynjar Bragi Einarsson 13 ára Elís Frank Stephen 14 ára Emilía Þorgils 15 ára Ida Karolina Harris 14 ára Jóhanna Steina Matthíasdóttir 18 ára Jóna Þórey Pétursdóttir 24 ára Jökull Jónsson 13 ára Kristjana Ellen Úlfarsdóttir 14 ára Sigrún Jónsdóttir 24 ára Sigurður Orri Egilsson 15 ára Sturla Óskarsson 14 ára Þorgerður M Þorbjarnardóttir 24 ára



Comments


bottom of page