top of page

Vangaveltur um sátt - P.S. HAFfræði

Pistill eftir Sigrúnu Perlu Gísladóttur, fulltrúa Ungra umhverfissinna í samráðsnefnd matvælaráðherra um Auðlindina okkar. Svipuð grein eftir Perlu um sama efni er aðgengileg á ensku hér.

-


Komin er út skýrsla sem rammar inn verkefnið Auðlindin okkar, sem Ungir umhverfissinnar hafa tekið þátt í. Verkefnið er að frumkvæði Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, og er unnið af Matvælaráðuneytinu og stórum þverfaglegum hópi sérfræðinga og hagaðila auk stærðarinnar samráðsnefndar sem undirrituð hefur verið virkur meðlimur í fyrir okkar hönd. Allt er þetta stórt í sniðum enda viðfangsefnið í stærri kantinum. Verkefnið sem við blasir er að endurhanna heildarumgjörð fiskveiðilöggjafar Íslands.


Því hefur oft verið haldið fram (og við öll etv gaslýst?) að kvótakerfið sé allt of flókið til þess að skilja það, og þess þó heldur til að ætla að breyta því. En reynsla mín af því að taka þátt í nefndarstarfinu hefur kennt mér að það er barasta alls ekki þannig. Þetta er ekki flókið, þetta er heldur ekki fáránlegt og þetta er ekki meitlað í stein. Kvótakerfið hefur forðað okkur frá ofveiðum og með því stuðlað að verndun þeirra tegunda í hafi sem við veljum að nýta. Hvernig veiðiheimildum og ágóðanum af þeim er deilt, þ.e.a.s. hinni svokölluðu “auðlind okkar”, er hins vegar hvar málið flækist og mörg upplifa að sitja eftir með sárt ennið. Það er þess vegna sem það eitt af meginmarkmiðum Auðlindarinnar okkar að stuðla að sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Hvernig við svo ætlum að fara að því, er að sjálfsögðu endalaust hægt að karpa um, því það verða jú aldrei öll sátt eða hvað?

Við þessi “öll” sem “eigum” þessa auðlind saman, við höfum ólíkan bakgrunn, ólík og missterk hagsmunatengsl og ólíkan áhuga á hafinu hreint og beint. Það sem ég tel hins vegar að við séum frekar sammála um er að við viljum halda áfram að stuðla að vernd hafsins, eins og grunnleggjandi markmið fiskveiðstjórnunarkerfisins er og hefur verið.


Ekkert okkar vill sjá meira plast en fisk í sjónum árið 2050. Við viljum ekki að sjórinn flæði yfir borgir barnanna okkar og við viljum absalútt ekki að Golfstraumurinn beygi af leið. Þá held ég við séum ekkert sérstaklega spennt fyrir súrnun sjávar - skeljarnar sem ekki geta myndast eru jú grunnurinn að fæðukeðjunni sem við erum að nýta. Ég leyfi mér því að vera bjartsýn og held að hér sé mögulega kominn nýr grundvöllur og ný leið til þess að skapa umrædda sátt. Sátt sem felst í því að standa saman vörð um umhverfið, standa saman vörð um sjóinn og lífið sem í honum býr.


Ég stillti þessu upp eins og spilastokk fyrir nefndinni á einum af okkar fyrstu fundum. Þótt þetta sé auðvitað enginn leikur og ákvarðanir hafi afleiðingar, þá má hafa “gaman að kvótakerfinu”. Síðastliðin hundrað ár höfum við spilað leikinn með fimmtíu og tvö efnahags-spil í stokknum. Ákvarðanir hafa verið teknar reistar á efnahgaslegum rökum.


Í upphafi vinnunnar við Auðlindina okkar teiknuðu starfshópar upp þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar; umhverfi, samfélag og efnahag. Þau lýstu því hvernig þær þyrftu að spila saman og hljómurinn sem út kæmi yrði sjálfbær. En þarna er ekki tekið með í reikninginn hve reynsla okkar og þar með hæfni til að spila út hinum ólíku spilum er ójöfn. Ég rétti upp hönd og hélt eldræðu um það að tími væri til kominn að umhverfis-spilið fengi að trompa og að hin tvö fylgdu með. Og það við góðar undirtektir. Merkilegt nokk var enginn sem mótmælti þessu - allt í einu á fyrsta fundi, vorum við öll á sömu síðu.


Umhverfið í öndvegi varð grunntónninn að vinnunni framundan, en hvað svo?

Margt hefur verið skrifað, talað, rætt og hugsað, og það er mikið gott, og eiga öll sem lagt hafa orð í belg þakkir skildar fyrir. En við það að blaða í skýrslunni og reyna að rúma vinnu síðastliðins árs verð ég að viðurkenna vonbrigði þegar ég skoða umfang hverrar af stoðunum þremur fyrir sig í vinnunni allri. Þetta er skiljanlegt, við skrifum kannski mest um það sem við þekkjum, en það sem við þyrftum að vera að skrifa um er allt það sem við þekkjum ekki eða leiðirnar sem eftir á að lýsa.


Tillögurnar í Auðlindinni okkar er lúta að umhverfismálum eru góðar, það má ekki misskiljast. En vonbrigðin eru til dæmis þau að þær fylla 35 blaðsíður af 467 blaðsíðna skýrslunni á meðan efnahags-tengd mál fylla 107 blaðsíður og samfélags-tengd mál 170 blaðsíður. Tvö síðarnefndu eru nefnilega tillögur og þar að auki sér-kaflar og nákvæmar útlistanir á hinum ýmsu kostum, göllum og sjónarmiðum. Slíka umfjöllun fá umhverfismálin ekki. Við föllum semsagt í gildruna um gamla góða karpið um peningana og sanngirnina og missum sjónar á því sem við vorum sammála um í upphafi; að umhverfið skuli vera í öndvegi í öllum þeim ákvörðunum sem við tökum.


En þessi vonbrigði mín væru einskis nýt og ég væri ekki að skrifa um þau ef ekki væri fyrir það að meginþorri vinnunnar er enn eftir. Það er að skrifa lögin sjálf! Það er ekki auðvelt verk og það er það að skapa sátt í samfélaginu ekki heldur. En það verður held ég miklu miklu einfaldara, ef við munum það saman að við ætlum að taka ákvarðanir með umhverfið í fyrirrúmi. Við munum rekast á marga veggi þar sem við vitum ekki hvað er “best fyrir umhverfið” en það er akkúrat þá sem við þurfum að tala meira saman, teikna fleiri lausnir og skrifa vandað efni. Við höfum tækifæri til að gera betur og ég trúi því að við komum sáttari út saman hinu megin fyrir vikið. Ég vona að þau sem með löggjafarvaldið fara taki orðum um umhverfi í fyrirrúmi alvarlega og skrifi nýju lögin raunverulega þannig. Að þau stökkvi á það tækifæri sem í því býr að þessi vinna skuli vera unnin á sama tíma og við ætlum að innleiða markmið Sameinuðu þjóðanna um a.m.k. 30% verndarsvæði í hafi fyrir árið 2030. Þá vona ég að þið kæru Ungu umhverfissinnar kynnið ykkur málið og komið ykkar sjónarmiðum á framfæri! Hellingur af vinnu er framundan er varðar framtíð okkar sem fiskveiðiþjóðar og við sem yngri erum höfum tækifæri til að forma hana til farsæls vegar.


PS - Fyrst ég fór að tala um hagfræði þá langar mig að tala um haffræði.

Í skýrslunni er ágætur kafli um menntun og að hana skuli efla. Það rímar ágætlega við þann grunntón sem settur er í tillögum Auðlindarinnar okkar um að hafrannsóknir skuli efldar og að staðið skuli sérstaklega vörð um grunnrannsóknir. Hins vegar er hér stórkostlegt ósamræmi ef vel er að gáð, því það nám sem tekið er til greina og greinileg áform eru um að efla er ekki það nám sem mun skila okkur fólki sem unnið getur að umræddum grunnrannsóknum.


Haffræðingar hjá Hafrannsóknarstofnun eru teljandi á fingrum annarrar handar, og fyrir því er sú einfalda ástæða að haffræði er hér ekki kennd. Í Háskóla Íslands er einn áfangi í faginu, undir jarðfræði grunnnámi. Almenn haffræði 1. Þá er sömuleiðis kenndur einn áfangi við Háskólasetur Vestfjarða, sem ég leyfi mér að áætla að sé sameiginlegur með Háskólanum á Akureyri.


Það er nefnilega alls ekki skortur á sjávarútvegstengdum greinum á Íslandi. Framboðið er bara ansi gott. Sjávarútvegsfræði á Akureyri, fiskeldisfræði á Hólum, Fisktækniskóli í Grindavík, Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði á Ísafirði og svona mætti lengi telja. En þessar greinar eru annað hvort til þess fallnar að stúdera það hvernig við mokum fisk (pening) upp úr hafinu, eða þá hvernig við stýrum strúktúrum þar um kring. Gott og vel, og vil ég síst lasta ofantaldar deildir eða nemendur sem þær sækja. EN fyrir okkur sem viljum læra um sjóinn einfaldlega á forsendum sjávarins sjálfs og lífsins sem í honum býr er ekkert í boði. Hvorki er boðið upp á haffræði né sjávarlíffræði - á landi sem er eyja í miðju Atlantshafi.


Ég tók þann eina áfanga í HÍ og kynntist þar góðum góðum kennara, doktor í hafefnafræði. Mitt nám í haffræði hefur því falist í kaffisopum með honum, en hann reyndi í áratug að komast á eftirlaun án árangurs, einfaldlega því enginn gat tekið við keflinu. Okkur vantar nefnilega haffræðinga muniði. En okkur vantar ekki efnivið og ekki vantar okkur tengingu við sjó. Unnsteinn Stefánsson heitinn skrifaði stórkostlegar kennslubækur sem vel mætti útfæra í heila háskólagráðu (lögmál hafsins hafa nefnilega ekkert breyst heldur ástand hans). Þar sem lært er um hafið á forsendum hafsins hafsins vegna. Þar sem byggt er undir þær grunnrannsóknir sem við lofum óspart að ætla að efla. Rannsóknarstofan er síðan alltumlykjandi.


Við haffræðingurinn veltum því fyrir okkur hvers vegna við værum svona óskaplega aftengd hafinu eins og við erum umkringd því. Hvers vegna börn í grunnskólum séu ekki sjúk í fiska og hvers vegna vinum mínum þótti það framandi þegar ég skráði mig í skipstjórnarnám. Hvers vegna allir halda ég segi HAGFRÆÐI sama hvað ég vanda mig að segja HAFFRÆÐI.


Við veltum fyrir okkur lausnum og ég spurði hann hvernig honum litist á haffræði á öllum skólastigum. Væri hægt að kenna haffræði í grunnskóla? Það stóð ekki á svari, sem var einfalt og næstum skondið “Jú jú að sjálfsögðu, ja sjáðu til við lærum landafræði!” Auðvitað. Jarðkúlan er 71% sjór en við lærum landafræði alla okkar skólagöngu. Ísland er 88% sjór og við kennum ekki haffræði. Þið skiljið hvert ég er að fara og ég vona að úr þessu verði bætt. Annars verður erfitt að efla loforð um að efla hafrannsóknir. Annars verður erfitt að hlúa að heilbrigði hafsins. Annars verður erfitt að hlúa að sambandi okkar við sjóinn.<3333



-

Pistill efitr Sigrúnu Perlu Gísladóttur. Hún er sjómaður og sjálfbærniarkitekt. Hún hefur setið í samráðsnefnd Matvælaráðuneytisins fyrir verkefnið Auðlindin okkar fyrir hönd Ungra umhverfissinna.


Comments


bottom of page