top of page

Umsögn UU við frumvörp til laga um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun

Umsögn þessi var send inn til Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins þann 4. október 2023.

---



Ungir umhverfissinnar (UU) hafa kynnt sér frumvörp til laga um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun og vilja með umsögn þessari koma mikilvægum athugasemdum við þau á framfæri.


Heilt yfir telja UU vissulega ýmis tækifæri falin í sameiningu þessara stofnana þegar kemur að aukinni skilvirkni og auknum gæðum en að slíkur ávinningur sé algjörlega háður hversu vel sameiningaráform hafa verið metin og undirbúin. Í núverandi mynd frumvarpana teljum við að alvarlegar afleiðingar geti hlotist út frá sjónarmiði náttúrunnar og er umfjöllun okkar hér að neðan til þess fallin að benda á það sem betur mætti fara og leggja til breytingar á útfærslum frumvarpsins.


Náttúruverndar- og minjastofnun

UU telja jákvætt að sameina eigi þær stofnanir sem sjá um friðlýst svæði og telja það jákvætt skref fyrir náttúruvernd á Íslandi. Sömuleiðis býður sameining þessara aðila upp á sóknarfæri í umsjón og eftirliti með bæði friðlýstum svæðum og minjum þar sem möguleiki er á að vinna sameiginlega að vernd náttúru og minja. Mikilvægast er að hagsmunum náttúrunnar sé ávallt forgangsraðað í fyrsta sæti og að tryggt verði að fulltrúar náttúruverndarsamtaka hafi áfram atkvæðisrétt um stjórn og stefnumótun náttúruverndarsvæða.


Við bendum á að varðandi Þingvallanefnd væri ákjósanlegt að nota tækifærið með ritun frumvarpsins til þess að bæta við sæti í nefndina fyrir hagsmunavörð náttúrunnar sem er óháður stjórnmálaflokkum. Slíkt myndi tryggja að rödd náttúrunnar fengi að heyrast í ákvarðanatöku nefndarinnar sem við teljum afar mikilvægt.


Við gagnrýnum harðlega það ákvæði frumvarpsins varðandi breytingu á skipulagi svæðisstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem fulltrúi náttúruverndarsamtaka fær ekki lengur fullan þátttökurétt sem stjórnarmeðlimur heldur aðeins áheyrnaraðild. UU eru ósammála þeim rökum sem færð eru fyrir þessari breytingu um að fulltrúar hagsmunasamtaka eigi ekki erindi í ákvörðunartöku svæðisstjórnar. Vatnajökulsþjóðgarður er stærsta náttúruverndarsvæði landsins og því gífurlega mikilvægt að fulltrúi náttúruverndarsamtaka hafi atkvæðisrétt í forsvari náttúrunnar.


Loftslagsstofnun

UU telja að heiti Loftslagsstofnunar sé ekki ákjósanlegt þar sem það lýsir aðeins mjög takmörkuðum hluta þeirrar starfsemi sem mun heyra undir hana.


Það að nafn stofnunarinnar snúi einungis að loftslagsmálum gerir það að verkum að það nær ekki yfir öll svið sem falla undir þessa nýju stofnun þar sem starfsemi hennar nær til fleiri þátta sem ekki tengjast loftslaginu beint. Dæmi um málefni sem ekki tengjast loftslagsmálum beint en munu heyra undir stofnunina eru, t.a.m. mengunarvarnir og hollustuhættir, erfðabreyttar lífverur, fráveitumál, loftgæði, stjórn vatnamála og varnir gegn mengun hafs og stranda.


Að einskorða nafn stofnunarinnar við loftslagsvána dregur úr heildrænni umræðu um umhverfismál, en loftslagsváin er aðeins ein af þeim áskorunum í umhverfismálum sem samfélagið stendur frammi fyrir. Aðrar stórar, hnattrænar áskoranir í umhverfismálum svo sem hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, eyðing vistkerfa, og mengun (önnur en losun gróðurhúsalofttegunda) þurfa einnig að endurspeglast í nafni stofnunarinnar og í almennri umræðu. Nafnið Loftslagsstofnun ýtir enn frekar undir þá ofuráherslu sem hefur þróast á loftslagsmál á kostnað umræðu um aðrar jafn aðkallandi áskoranir í umhverfismálum sem tengjast allar innbyrðis. Umhverfisstofnun eða Umhverfis- og loftslagsstofnun væri því meira lýsandi nafn fyrir þessa stofnun sem myndi ná til fleiri málaflokka og ná betur utan um þessa starfsemi.


Annað varðandi fyrirhugaða nýja Loftslagsstofnun sem UU vilja koma á framfæri snýr að eftirliti og rannsóknum á orku og orkunýtingu, en mikilvægt er að þau störf séu ekki undir sömu stofnun og leyfisveitingar orkuframkvæmda. Nýting og framleiðsla orku á Íslandi er nátengd óafturkræfri eyðileggingu á náttúruauðlindum sem hefur neikvæð áhrif á gæði óbyggða, líffræðilega fjölbreytni og loftslagið. Huga þarf vel að því hvernig aðhald vegna áhrifa orkunýtingar á náttúru verður tryggt þegar þessir tveir þættir munu að hluta til falla undir sömu stofnunina.


Hvað varðar fyrirhugaða breytingu á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, um að auka áherslu stofnunarinnar á rannsóknir á orkulindum hafsbotnsins, bendum við á ósamræmi við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum og um jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Hafi slíkar rannsóknir í för með sér nýtingu á jarðefnaeldsneyti sem finna má á hafsbotni, teljum við þetta vera alvarlega afturför af hálfu stjórnvalda og brýtur í bága við alþjóðlegar skuldbindingar. Í samhengi þess að frumvarp sem lagt var fram um bann gegn olíuvinnslu og olíuleit innan lögsögu Íslands síðasta þingvetur sé nú ekki á þingmálaskrá höfum við verulegar áhyggjur af þessum breytingartillögum.


Að lokum

Ný “Loftslagsstofnun” og ný náttúruverndar- og minjastofnun fela í sér sóknarfæri í umhverfismálum en UU ítreka að huga þarf vel að útfærslu og skipulagi stofnananna eigi tilætluðum árangri sameiningar að nást. Mikilvægt er hlutverk þeirra stofnana sem sameinast í nýjar stofnanir haldist fyllilega og að nýju stofnanirnar efli þá starfsemi en verði ekki til þess að þekking og mannauður fyrrverandi stofnana tapist.


UU vona að tekið verði tillit til athugasemda okkar við áframhaldandi vinnslu þessara frumvarpa.



---

Fyrir hönd Ungra umhverfissinna,

Finnur Ricart Andrason, forseti UU,

Helga Hvanndal Björnsdóttir, meðstjórnandi í náttúruverndarnefnd UU,

Svana Björg Eiríksdóttir, meðstjórnandi í náttúruverndarnefnd UU,


댓글


bottom of page