top of page

Umsögn UU og Landverndar um uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Updated: Oct 2


Ungir umhverfissinnar og Landvernd hafa nú skilað inn ítarlegri umsögn um uppfærða aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Þó samtökin fagni því að uppfærð aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda hafi loks litið dagsins ljós teljum við það mikið áhyggjuefni að lítið sem ekkert samráð var haft við félagasamtök sem starfa með hagsmuni náttúrunnar og almennings að leiðarljósi.


Þó aðgerðaáætlunin innihaldi mun fleiri aðgerðir en fyrri áætlanir (150 talsins) er langt í land með að raungera fjölda þeirra. Að auki er alls óljóst hvort aukinn fjöldi aðgerða muni skila auknum árangri þar sem fyrri aðgerðaáætlanir virðast ekki hafa skilað markverðum samdrætti til þessa heldur hefur heildarlosun Íslands nánast staðið í stað undanfarin ár. Þetta þarf nú að breytast.



Fjöldi er ekki það sama og fjármagn

Magn aðgerða á hugmyndastigi (66 af 150) og aðgerða sem skortir fjármögnun (82 af 150) í nýrri áætlun er einnig áhyggjuefni því þegar hefur mikill tími tapast við aðgerðaleysi og er brýnt að aðgerðum sé úthlutað fjármagn og þær fari í framkvæmd sem allra fyrst. Þá benda samtökin á að fjöldi fjármagnaðra aðgerða er á formi styrkja úr Orku- og loftslagssjóði en ekki víst að sjóðurinn megni að fjármagna allar þær aðgerðir sem hann á að fjármagna.


Kynslóðajafnrétti

Því minna sem við náum að draga saman í losun fram til 2030, því meira þurfa komandi kynslóðir að þola neikvæðar afleiðingar af völdum loftslagsbreytinga. Einnig færist ábyrgð á samdrætti losunarinnar yfir kynslóða á milli og komandi kynslóðir þurfa að draga úr losun samfélagsins enn hraðar sem og nota mikið meira fjármagn til aðlögunaraðgerða. Árið 2030 nálgast óðum og illa hefur gengið að ná fram samdrætti. Það er ákaflega ósanngjarnt að varpa ábyrgðinni á komandi kynslóðir.


Við bindum miklar vonir við að tekið verði tillit til athugasemda okkar við þessa uppfærðu aðgerðaáætlun og bjóðum fram aðstoð við alla áframhaldandi vinnu í loftslagsmálum.





Comments


bottom of page