top of page

Opið bréf til Alþingis

Updated: Dec 17, 2021

Afrit af pósti sem Ungir umhverfissinnar hafa sent á þau sem setjast á þing í dag, þriðjudaginn 23. nóvember 2021.


Kæru nýkjörnu þingmenn, ungir sem aldnir nýir sem gamlir.


Til hamingju, - og gleðilegan fyrsta þingdag!

Við í Ungum umhverfissinnum höfum gríðarlega mikla trú á ykkur í hið óeigingjarna starf sem þið hafið valið - með þökkum fyrir metnaðinn og drifkraftinn, sem við erum viss um að þið viljið nýta til góðs.


Sólin er ekki hætt að skína þó kominn sé vetur. Einkunnirnar í Sólinni voru eins ólíkar og þær voru margar en okkur finnst vænlegast (og skemmtilegra) að skoða það sem vel var gert og vinna okkur þaðan. Við höfum því tekið saman lista yfir þau málefni úr kvarðanum sem samstaða er um, þ.e.a.s. málefni sem nú þegar er meirihluti fyrir á þingi, kjósi þingmenn samkvæmt stefnu síns flokks. Um er að ræða 22 málefni af þeim 78 sem metin voru og gerum við því ráð fyrir hljóti snögga og góða afgreiðslu Alþingis.


Við viljum vekja athygli ykkar á því að við höfum sent bréf á formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja (sjá viðhengi), með áskorun um að taka málefnin inn í stjórnarsáttmálann. Áskorun okkar til þingsins alls hlýtur því að vera sú að vera talsmenn umhverfisins og loftslagsins öll sem eitt, og standa við það sem hver flokkur setti fram í sinni stefnu. Þess má geta að flokkarnir við stjórnarmyndunarviðræðuborðið eru sammála um sex atriði af 78 og því þurfa framtíðarkynslóðir á kröftum ykkar allra að halda. Við trúum því að við getum þetta en við getum það bara ef við gerum það saman.



Í viðhengi er listinn yfir málefnin 22 sem nú þegar er samstaða um, en betur má ef duga skal og allt það. Til frekari hugmyndaauðgi hvetjum við ykkur til að skoða kvarðann allan sem er að finna á www.solin2021.is með rökstuðningi og heimildum.


Endum á broti úr grein loftslagsfulltrúa og gjaldkera félagsins sem birtist í Fréttablaðinu í morgun:

“... Það að takast á við loftslagsvánna er ekki gert “til þess eins” að bjarga loftslaginu eða lífríki Jarðar, heldur er það hreinlega nauðsynlegt til að bjarga okkur sjálfum. ... Það að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga er mun dýrara en að grípa strax til forvarnaraðgerða. Hagur lands okkar, fyrirtækja, stofnana og allra samfélagshópa er því undir því kominn hvernig, og hve hratt, við sem þjóð bregðumst við. … Við unga fólkið höfum upplýst ykkur í valdastöðum um hvað okkur finnst þurfa að gera. Stóra spurningin nú er einfaldlega, eruð þið tilbúin að hlusta og taka mark á okkur? Það þarf hugrekki til, en okkur langar að trúa að þið hafið það.”


Með góðum kveðjum,

stjórn Ungra umhverfissinna








Comments


bottom of page