top of page

Ísland ekki á réttri leið til að standa við Parísarsamninginn

Hér að neðan er sameiginleg yfirlýsing Ungra umhverfissinna, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands um stöðu loftslagsmála á Íslandi ásamt kröfum til umbóta.


Ísland verður að standa við Parísarsamninginn

Ekkert bendir til að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum. Kveðið er á um í samningi Íslands við Evrópusambandið að Ísland dragi úr losun ár hvert um a.m.k. 1/10 hluta af 29% í samdrætti á tímabilinu 2021–2030 í þeim geirum sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á. Samdráttur aðildarríkja Evrópusambandsins, Íslands og Noregs skal vera línulegur í þessum geirum. Ísland mun ekki ná að standa við þessa skuldbindingu í ár eða næstu árin m.v. núverandi aðgerðir.


Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og nýútkomin eldsneytisspá Orkustofnunar sýna að líklegur samdráttur sem gæti náðst fram til 2030 miðað við árið 2005 er nær 23% en 29% sem Ísland er þjóðréttarlega skuldbundið til að ná samkvæmt samningi við Evrópusambandið. Enn síður óljós markmið sem ekki fara að reglum Evrópusambandsins. Skv. Eldsneytisspánni verður samdráttur í vegasamgöngum og frá fiskiskipum mun minni en aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir og skv. stöðuskýrslunni eru aðgerðir á sviði úrgangsmála og vegna losunar frá jarðvarmavirkjunum mjög skammt á veg komnar. Samanlagt yrði að óbreyttu samdráttur í losun fram til 2030 ekki nema rúm 700 þúsund tonn koltvísýringsígilda en ekki tæp 1200 þúsund tonn.


Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir umhverfissinnar krefjast þess að ný ríkisstjórn verði mynduð með loftslagsmálin í kjarna samstarfssinns með skýrum tímasettum og mælanlegum markmiðum og áformum um aðgerðir í stjórnarsáttmála og komi sér strax að verki og takist á við loftslagsvána af fullri alvöru. Síðustu fjögur ár hefur loftslagsstefna stjórnvalda verið ófullnægjandi og einkennst af hálfkáki.


Samtökin krefjast þess að ríkisstjórnin

1. Lýsi þegar í stað yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga til að sjá til þess að allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar miðist við að draga úr losun.

2. Styðji við markmið Parísarsáttmálans um að takmarka hlýnun Jarðar við 1.5°C frá iðnbyltingu á borði en ekki einungis í orði með því að setja sér sjálfstætt markmið um a.m.k. 55% samdrátt fyrir 2030 m.v. 2005 í stað markmiðs sem er á bilinu 29–55% í samfloti með Evrópusambandinu og Noregi, líkt og ráðamenn hafa iðulega komist að orði.

3. Uppfæri aðgerðaráætlun í loftslagsmálum í samræmi við uppfært markmið, sjái til þess að aðgerðirnar séu fullfjármagnaðar og að ráðist verði í þær eins fljótt og mögulegt er.

4. Fasi út notkun jarðefnaeldsneytis í fyrir árið 2035, enda sýnir eldsneytisspá orkustofnunar að það er vænlegasta leiðin til að draga hratt úr notkun jarðefnaeldsneytis og þar af leiðandi losun gróðurhúsalofttegunda.

5. Banni bruna og flutning svartolíu innan 12 mílna landhelgi Íslands. Ávinningur af svartolíubanni á Norðurslóðum myndi strax koma fram. Ísland hefur vissulega unnið að slíku banni á alþjóðavettvangi en best er að byrja heima.

6. Uppfylli ákvæði Parísarsamningsins og heimsmarkmiðs 13.a um að „[e]fnd verði fyrirheit hátekjuríkja um 100 milljarða dala framlag [árlega], bæði frá hinu opinbera og einkaaðilum, í því skyni að aðstoða þróunarlönd við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að gagnsæjum aðgerðum. Jafnframt verði unnið sem fyrst að fjármögnun Græna loftslagssjóðsins svo að hann geti starfað af fullum krafti.“ Og þarf þetta að vera í formi styrkja en ekki lána.

7. Leggi kolefnisgjald á alla losun með það að leiðarljósi að viðkvæmir hópar beri ekki þyngri byrðar. Hingað til hafa stjórnvöld fyrst og fremst veitt fjárhagslegar ívilnanir til þeirra sem hafa efni á að kaupa sér rafmagnsbíla en ekki hækkað gjald losunar sem neinu nemur. Hækka þarf vörugjöld á nýjar vélar og tæki sem brenna jarðefnaeldsneyti.

8. Leggi af framleiðslutengda styrki til landbúnaðar og veiti þess í stað styrki til atvinnustarfssemi og búsetu á landsbyggðinni, einkum í þágu bættrar landnotkunar og náttúruverndar, þ.m.t. skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis.

9. Moki ofan í skurði á öllum jörðum í ríkiseigu sem eru ekki í notkun fyrir 2025.

10. Auki verulega rannsóknir, gagnaöflun og aðgengi að upplýsingum um loftslagsmál til að upplýsa ákvarðanatöku og almenning betur um stöðu losunar og aðgerða á Íslandi.

11. Breyti lögum um loftslagsmál svo loftslagsráð geti sinnt því mikilvæga hlutverki að veita stjórnvöld nauðsynlegt aðhald. Einnig þarf að stórbæta stjórnsýslu loftslagsmála.


Meirihluti á þingi fyrir fjölda málefna úr Sólar-kvarða Ungra umhverfissinna

Auk þessara krafna hér að ofan höfum við tekið saman hvaða málefni í Sólar-kvarða Ungra umhverfissinna njóta stuðnings meirhluta þingmanna (ef gengið er út frá því að þingmenn séu samkvæmir stefnu síns flokks). Þar eð meirihluti er fyrir þessum málefnum er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að þau mál fái fljóta og góða afgreiðslu þingsinis. Þessi málefni má finna hér.





コメント


bottom of page